5.9.14

Draumurinn!

Góðan dag elsku fólk! Gleðilegan föstudag!

Minn dagur byrjaði ósköp vel, í ræktinni og mun enda á næturvakt á Pulsuvagninum í Keflavík að fóðra hungraða djammara ;) 



Hvað með það, nú er liðið rúmt ár frá því að ég útskrifaðist úr Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Það tók mig lengri tíma en venjulega þar sem ég hætti í nokkur ár því ég flutti að heiman og fleira sem skiptir litlu máli. Nema hvað alltaf fékk ég að heyra
-Þú átt aldrei eftir að fara aftur í skóla...
-Þú verður aldrei stúdent 
-Ætlaru aldrei að mennta þig?

Eins sárt og mér þótti að heyra það að ég ætti aldrei eftir að mennta mig því ég hætti í skóla þá bar ég höfuðið hátt og ákvað að ég ætlaði sko að sýna þeim hvað í mér býr! Þannig loks árið 2010 skellti ég mér aftur á skólabekk, ég hafði þá nýlega flutt heim til pabba og ákvað að nú væri rétti tíminn til að klára þetta blessaða framhaldsskóla nám! Ég hef alltaf verið góður námsmaður og átt auðvelt með námið þannig ég vann helling með náminu og á endanum flutti ég aftur í litla íbúð. Peningaleysi og uppgjöf sagði til sín á vissum tímapunkti en ég ákvað að gefast ekki upp og leyfa þessu fólki sem hafði enga trú á mér að hafa rétt fyrir sér! 

Árið 2011 var ég komin í tvær vinnur og fullt nám. Ég var í skólanum til hálf 5, mætti í aðra vinnuna klukkan 5-8 og hina frá 9-12/1 um nóttina. Ég rak heimili, lærði heima og var í ræktinni. Ég veit ekki ennþá hvernig mér tókst að halda geðheilsunni og fá líka svona góðar einkunnir... en einhvern vegin tókst þetta hjá mér!
2012 ákvað ég loks að hætta í seinni vinnunni og halda mér bara við eina. Fékk aftur að flytja heim á meðan ég var að klára námið. Þvílíkur léttir og einkunnirnar urðu enn hærri. 
Loks árið 2013 útskrifaðist ég! Öllum og sérstaklega mér til mikillar gleði. 


Nú er liðið rúmt ár frá þessum merka degi og ég ákvað eftir útskrift að flytja í Reykjavík og taka mér allavega 1 ár til þess að leika mér bara aðeins áður en ég færi aftur á skólabekk. Nema hvað að ég gerði mér alls ekki grein fyrir því hversu dýrt það væri að búa í miðbæ Reykjavíkur og hversu illa borgað það er að vera í einni vinnu og vinna bara á daginn. Hef alltaf unni kvöld og helgar vinnu. Þannig árið fór í gjörsamlega ekkert. Þannig ég lofaði sjálfri mér að taka annað ár í að leika mér áður en á skólabekkinn væri haldið á nýjan leik. 

Spánarferð var bókuð og skelltum við fjölskyldan okkur í 3 yndislega vikur! Næst á dagskrá er að fara til útlanda með vinnufélögunum og mun ég svon enda árið á viku ferð til Kanada að hitta mína yndislegu vinkonu sem er í námi þar!

En hvað svo? 

Ætlar þú ekki að læra neitt?
Ætlaru bara að vinna á pulsuvagni það sem eftir er af ævinni?
Ætlaru ekkert í háskólann?
Hvenær ætlaru að mennta þig almennilega?

Þetta eru spurningarnar sem rigna yfir mig núna úr öllum áttum. 
Jú ég ætla að mennta mig meira en nei ég ætla líklega ekki í háskóla. 

Ég hef aldrei haft neinn draum um að verða eitthvað ákveðið frá því ég var lítil eins og svo margir sem ég þekki. Jújú mig langaði alltaf til að verða rithöfundur og reyni að stefna á þann draum seinna í framtíðinni en aldrei langaði mig til að verða læknir, sálfræðingur, lögfræðingur eða neitt slíkt. Ég ætlaði bara að verða stór og gefa út bók. 
Það var ekki fyrr en um tvítugt þegar ég fór að hafa rosalegan áhuga á líkamsrækt og öllu sem því viðkemur. Þannig afhverju ekki að verða einkaþjálfari?


-Það verður enginn ríkur á því!
-Það er enginn almennileg menntun!
-Það er ekki framtíðar vinna!
-Það er bara eitthvað auka djobb!

Nú loks þegar ég hef ákveðið hvað ég ætla mér að verða fæ ég að heyra setningar á borð við þessar. En afhverju? 
Nei ég veit ég verð ekki milli á því að vera einkaþjálfari, en ég veit að ég mun vakna glöð á morgnanna og hlakka til að fara í vinnuna. Ég elska að lyfta. Ég elska að ögra sjálfri mér og reyna á styrkinn og þolið. En mér finnst ekkert eins skemmtilegt og að fá vinkonurnar með mér á æfingu og fá að pína þær!




Nú loks svara ég þeirri spurningu með stolti um hvað ég ætla að verða! Einkaþjálfari! Kannski seinna meir á ég eftir að fara í annað nám og mennta mig betur, hver veit. En eins og staðan er í dag er liggur áhuginn í líkamsræktinni. 
Ég æfi 6x í viku, reyni að borða þokkalega og set mér raunhæf markmið. Ég hugsa vel um líkama minn og vil að hann líti vel út og þar sem mér finnst ósköp gott að borða óhollan mat þá veit ég að ég liti ekki út eins og ég geri ef ég væri ekki að æfa svona mikið. 

En það sem mér finnst yndislegast við þetta allt saman og eflaust eru allir þeir sem stunda líkamsrækt sammála mér, er blessaði árangurinn! Það er ekkert eins gaman og að sjá árangurinn eftir allt erfiðið. 





Elsku fólk. Virðum náungann og hans drauma og vonir.
Við erum sem betur fer mismunandi eins og við erum mörg.

Kveð í bili








Engin ummæli:

Skrifa ummæli